top of page

Félagsheimilin og framtíðin

Félagsheimilin okkar eru öll miklar og góðar byggingar.  Þau voru byggð upp af fólkinu í gömlu hreppunum og þeim fylgdu litlar eða engar skuldir á sínum tíma, en þeim fylgir svolítil sál og svolítil ást.  Þrátt fyrir að reksturinn sé erfiður má benda á að talsverður hluti af rekstrarkostnaði þeirra er innri húsaleiga sveitarfélagsins.  Það eru því bæði tekjur,og gjöld og fasteignasjóðurinn sem sveitarfélagið á og tekur við þessum tekjum en hefur ekki haft mikil útgjöld af húsunum í formi vaxta og afskrifta.  Augljóst er þó að í flestum þeirra liggur kostnaðarsamt viðhald fyrir dyrum.  

Margir telja að rétt sé að selja húsin og benda réttilega á að þau séu ekki mikið nýtt.  Ég tel nauðsynlegt að taka slíka umræðu með heimamönnum og eigendum á hverjum stað og gera það ef þeir vilja, en satt að segja finnst mér það vera afturför ef þetta verður gert almennt.  Ég held að það væru miklu meiri verðmæti fólgin í því að við reyndum að nota félagsheimilin betur og efla samfélögin.  Maður er manns gaman og fólk ætti að gera miklu meira af því að nota þau til að hittast, halda námskeið, fræðslufundi og sletta jafnvel úr klaufunum.  Þá er ekki að vita nema að hugvitsamt skólafólk gæti nýtt þau til hagræðingar og framfara í skólastarfi.  

Með því að tækifærum til að stunda vinnu óháð staðsetningu og öðrum tækniframförum fjölgar,  mun ásókn í búsetu utan þéttbýlis aukast og þar með þörf fyrir félagslíf og afþreyingu.  Ég er því ekki frá því að í félagsheimilunum okkar kunni að leynast fjársjóður og tækifæri.  

Við eigum að geta haldið sjó og mögulega leigt þau undir skilyrta starfssemi með samfélagssjónarmið í huga.  Hugsum út fyrir kassann.

Elvar Eyvindsson

d rangeyst.png
bottom of page