top of page

Björgunarmiðstöð á Hvolsvelli

Brunavarnir Rangárvallasýslu bs. eru gott dæmi um samstarf sveitarfélaga sem gengur mjög vel. Að þessu byggðasamlagi standa Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Ásahreppur. Undanfarin fjögur ár hef ég setið í stjórn brunavarna ásamt því að starfa þar einnig sem almennur slökkviliðsmaður.

 

Slökkviliðið hefur byggst upp smátt og smátt í gegnum árin. Búnaður hefur verið endurnýjaður og bættur, mönnun hefur aukist og menntun slökkviliðsmanna til starfsins hefur tekið miklum framförum. Liðið er öflugt og vílar ekki fyrir sér að koma til aðstoðar þegar þörfin er hvað mest. Til þess að liðið geti það, þarf aðstaða og búnaður að vera í lagi.

 

Nú fyrr í þessum mánuði var vígð ný slökkvistöð Brunavarna Rangárvallasýslu á Hellu. Sú aðstaða er hin glæsilegasta í alla staði, gott rými fyrir bílaflota og viðhald hans, fyrirmyndar starfsmannaaðstaða og einnig aðstaða fyrir stjórnstöð, menntun og fundahald. Húsnæðið sem hin nýja stöð leysir af hólmi var löngu komið til ára sinna, allt of lítið, illa búið og ekki vel staðsett. Ég er afskaplega ánægður með hvernig til tókst við framkvæmdina og er hún veruleg lyftistöng fyrir Brunavarnir Rangárvallasýslu.

 

Því finnst mér rökrétt að við förum nú að huga að bættri aðstöðu á Hvolsvelli. Núverandi slökkvistöð uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíkra bygginga í dag. Starfsmannaaðstaða er engin, stöðin rúmar varla þá þrjá bíla sem í henni eru og ekki er gerlegt að sinna viðhaldi tækja og búnaðar vegna plássleysis.

 

Fyrir skömmu óskaði björgunarsveitin Dagrennining eftir afstöðu stjórnar brunavarna varðandi þær hugmyndir að björgunarsveitin og brunavarnir myndu standa saman að byggingu björgunarmiðstöðvar á Hvolsvelli. Vel var tekið í hugmyndina af stjórn og erindinu vísað til verðandi stjórnar. Mér finnst þetta virkilega góð hugmynd. Ég held að nú væri lag að bjóða Lögreglunni á Suðurlandi núverandi húsnæði brunavarna á Hvolsvelli til kaups. Sú aðstaða myndi án efa nýtast þeirri stofnun vel og gæti jafnvel orðið til þess að fjölga störfum hér á svæðinu. Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn á öllum ökutækjum umferðarslysa og væri þessi tiltekna aðstaða tilvalin til þeirrar rannsóknarvinnu ásamt því að tryggja enn frekar höfuðstöðvar lögreglunnar á Suðurlandi á Hvolsvelli.

 

Með sölu á núverandi aðstöðu myndast grundvöllur fyrir fjárfestingu í nýju húsnæði. Ég sæi fyrir mér að björgunarmiðstöð Brunavarna Rangárvallasýslu, björgunarsveitarinnar Dagrenningar og sjúkrabíla HSU gæti verið staðsett á lóðinni Dufþaksbraut 6 á Hvolsvelli, norðan núverandi björgunarsveitarhúss. Sú lóð hentar einkar vel m.t.t. stærðar, staðsetningar og tengingar við þjóðveg.

Við á D- listanum munum leggja okkar af mörkum til þess að þessi hugmynd geti orðið að veruleika á næsta kjörtímabili.

 

Anton Kári Halldórsson, oddviti D- listans og annarra lýðræðissinna í Rangárþingi eystra

d rangeyst.png
bottom of page