Að þora !
Ég má til með að setja niður á blað nokkra punkta varðandi grein fulltrúa L-lista og jafnvel verðandi fulltrúa N-listans. En þá grein má finna hér http://nolrangey.is/sveitarstjori-radinn-a-faglegum-forsendum/
Mér finnst alltaf sérstakt þegar fólk eyðir meiri tíma í að gagnrýna stefnu og málefni annarra flokka í stað þess að hamra á og selja sín málefni og hvað það stendur fyrir.
Það má nefnilega alveg snúa þessu á hvolf og setja fyrirsögnina þannig „Nýji listinn er sá eini sem ekki teflir fram sveitarstjóraefni“. Hvort það er gott eða slæmt skal ég ekki segja til um. Ég virði líka þessa ákvörðun N- listans og þeirra skoðanir.
Ég get hins vegar ekki annað en tjáð mig aðeins um lýðræðið, aðkomu minnihluta og tilurð núverandi meirihlutasamstarfs sem tekið er til umræðu í greininni.
Fyrir það fyrsta að þá er það laukrétt að sveitarstjóri/framkvæmdarstjóri er ráðinn af sveitarstjórn að afstöðnum kosningum. En að halda því fram að það sé ekki íbúanna að kjósa um sveitarstjóraefni þegar listar bjóða þau fram, er einfaldlega ekki rétt. Því jú það liggur í augum uppi að fái listi sem býður fram slíkt efni, umboð kjósenda til þess að ráða þann einstakling, þá hefur hann verið valin af fólkinu. Alveg á sama hátt getur fólk valið að kjósa þann lista sem ekki teflir fram sveitarstjóraefni og er þá að kjósa með því að staðan verði auglýst og sveitarstjóri ráðinn í kjölfarið.
Ég veit ekki annað en að fulltrúi minnihluta hafi haft mjög gott aðgengi að sveitarstjóra á líðandi kjörtímabili og hafi getað nálgast allar upplýsingar sem óskað var eftir. Ég veit heldur ekki betur en að fulltrúi minnihlutans hafi í raun unnið þétt með meirihlutanum að flestum málum á kjörtímabilinu, allavega eru afskaplega fáar bókanir í fundargerðum sveitarstjórnar sem sýna fram á annað. Enda var það ákvörðun í upphafi að allar raddir hefðu vægi og við værum saman í að vinna að velferð sveitarfélagsins okkar. Fulltrúar minnihluta eiga sæti í öllum nefndum og ráðum og hafa haft öll tækifæri til að koma sínum málum á framfæri. Ef litið er til baka, hefur það kannski ekki verið nýtt mikið af minnihlutanum þ.e. þetta mikilvæga aðhaldshlutverk eins og segir í greininni. Að mínu mati hefur samstarf meiri- og minnihluta í sveitarstjórn, nefndum- og ráðum gengið mjög vel á líðandi kjörtímabili og þakka ég kærlega fyrir það.
Ef við víkjum aðeins að gagnrýni fulltrúa L- listans á meirihlutasamstarf D og B, þá er rétt að minna á að fulltrúi L- lista var í kjörstöðu til þess að mynda meirihluta með öðrum hvorum flokknum eftir síðustu kosningar. Í rauninni er kannski undarlegt að L-listinn og B- listinn skyldu ekki ná saman þar sem báðir listar voru með það sem eitt af sínum helstu málum á stefnuskrá að ráða „ópólitískan“ sveitarstjóra. En hvers vegna L- listinn nýtti sér ekki sína oddastöðu og kjörið tækifæri til þess að komast í meirihluta sveitarstjórnar og þar af leiðandi vinna sínum málum brautargengi, er mörgum óskiljanlegt og spurning er hvort ekki hafi vantað bara aðeins þor til ? Já eða vilja ? Hefði það ekki verið hagur þeirra sem kusu L- listann að fá sinn fulltrúa í meirihluta sveitarstjórnar ? Það er allavega alveg ljóst að L- listinn var í kjörstöðu eftir síðustu kosningar til þess að „Breyta til og byggja upp“. Skyldu þau vera klár í það núna ?
Að síðustu tek ég undir það sem kemur fram í lok greinarinnar, að það eru málefnin sem eiga að skipta mestu máli, en til gamans þá langar mig að benda á að það voru fulltrúar Nýja listans sem stýrðu umræðunni inn á þessa braut. Það er spurning hvort að þau ættu ekki að beina henni að sínum málefnum í stað þess að hafa áhyggjur af stefnu og málefnum annarra framboða ??
Að öðru leyti hlakka ég til komandi daga í kosningabaráttu og vonast eftir málefnalegri og uppbyggjandi umræðu um öll þau málefni sem virkilega skipta okkur máli hér í Rangárþingi eystra.
Við á D-listanum vitum fyrir hvað við stöndum og hvert við stefnum, já og umfram allt, við þorum.
Anton Kári Halldórsson, oddviti D-lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna.