top of page

Kæri kjósandi í Rangárþingi eystra

Nú hefur þú fengið í hendurnar stefnuskrá D – lista sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Við höfum vandað okkur við gerð stefnunnar og einungis sett þar fram atriði sem við ætlum að vinna að og koma í framkvæmd á næsta kjörtímabili.

Við erum öflugur hópur fólks með breiðan bakgrunn og mikla reynslu, hver á sínu sviði. Við erum öll tilbúin til þess að vinna af heilindum fyrir sveitarfélagið okkar á komandi kjörtímabili með hagsmuni allra íbúa þess að leiðarljósi. Verkefnin sem bíða okkar eru fjölbreytt og krefjandi, en saman eru okkur allir vegir færir. Tækifærin blasa hvarvetna við og við erum tilbúin að grípa þau.

Við teljum á allan hátt virkara og til heilla fyrir sveitarfélagið að sveitarstjóri sé sá sem stendur að því með sínum lista að semja stefnu og markmið fyrir kosningar og á því allt undir að þeim verði komið í framkvæmd. Með því að bjóða fram sveitarstjóraefni er íbúum gefinn enn betri kostur til að kjósa sína forystu. Hvort sem sveitarstjóri er kjörinn eða ráðinn, verður hann alltaf pólitískur, að því leyti, að hann hlýtur að vinna að stefnumálum þeirra sem mynda meirihluta sveitarstjórnar hverju sinni. Við stefnum að fjórum sætum í sveitarstjórn og því er efsti maður á listanum, Anton Kári Halldórsson okkar sveitarstjóraefni.  

Við hvetjum þig kjósandi góður til þess að setja X við D á kjördag því þá eru málin í þínum höndum. Treystir þú okkur til verksins þá heitum við því að leggja okkur fram við að vinna af heilum hug í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.

Kærar kveðjur, D – listi sjálfstæðismanna og annarra lýðræðissinna

öllsaman300ppi.jpg
d rangeyst.png
bottom of page